Eftirfarandi grein er eftir : Georg Jón Jónsson
Á Borðeyri við Hrútafjörð stendur
gamalt járnklætt timburhús, ein hæð
og ris með sneitt ofan af stöfnunum.
Þetta hús var orðið æði hrörlegt
áður en endurbygging þess hófst fyrir
nokkru, enda komið til ára sinna. Það hefur
staðið þarna nálega frá því
byggð hófst á þessum stað. Raunar
held ég að það sé með elstu húsum
hér við Húnaflóa sem enn eru uppistandandi.
Saga þessa húss er mjög merkileg og nátengd
sögu héraðsins og nær reyndar langt út
fyrir það svæði.
Húsið var byggt sem íbúðarhús
verslunarstjórans og var upphaflega kallað Faktorshús
upp á dönsku eins og eðlilegt var miðað
við þann tíma. Þarna hafa búið
ýmsir merkilegir menn og konur í gegnum tíðina,
menn sem mörkuðu afdrifarík spor í sögu
verslunar og viðskipta bæði innan héraðs
sem og á landinu öllu. Einnig hefur verið starfrækt
verslun í húsinu og ýmis önnur þjónusta.
Svo samofið er þetta hús öllu á
þessum stað að ég hef leyft mér að
kalla það "andlit staðarins".
Búseta
Árið 1858 hefst samfelld búseta á Borðeyri.
Þá flytur þangað ungur maður að
nafni Pétur Eggerts, sonur Friðriks Eggerts prests
í Akureyjum og konu hans Arndísar Pétursdóttur.
Hann hafði lært verslunarfræði í Englandi
og fengið verslunarleyfi árið áður
þá aðeins 25 ára gamall.
Af frásögn samtímamanna Péturs má
ráða að hann hafi verið framfarasinnaður,
atorkusamur, stórhuga og látið fátt
aftra sér við að framkvæma það
sem hann hafði hug á.
Hann gerðist líka strax stórtækur um
húsabyggingar en ekkert hús var á Borðeyri
þegar hann kom þangað. Fyrsta húsið
sem Pétur reisti var torfbær með þremur
stafnþiljum mót suðri. Stóð bærinn
á sömu lóð og þar sem reist var
tvílyft steinhús ( sem enn stendur ) undir landsímastöð
árið 1911.
Í þessum torfbæ mun Pétur hafa búið
fyrstu árin. Árið 1860 byggir Pétur
vörugeymslu 12x24 álnir að flatarmáli,
vandaða að öllum viðum og frágangi. Um
þetta leyti er hann farinn að versla með vöruleifar
frá lausakaupmönnum. Þetta vöruhús
stóð í nærfellt hundrað ár
og muna það margir sem pakkhús Kaupfélags
Hrútfirðinga. Gamla pakkhúsið var rifið
1958. Það vék fyrir nýjum verslunarhúsum
kaupfélagsins sem reist voru á sama stað.
Árið 1862 rís svo hús það
sem hér um ræðir og er í dag kallað
Riishús. Það er ein hæð og rishæð
undir bröttu þaki byggt á hlöðnum
grunni. Af heimildum má ráða að ekki hafi
húsið verið fullklárað sem íbúð
strax í upphafi. Þannig segir Finnur Jónsson
á Kjörseyri í Sagnaþáttum sínum
frá því er hann kom fyrst í Hrútafjörð
sumarið 1864 þá hafi hann og samferðafólkið
komið á Borðeyri til Péturs Eggerts og
þegið veitingar í þessu húsi, portvín
og kaffi en þá var starfrækt krambúð
í suðurenda hússins en að öðru
leyti var húsið óinnréttað. Árið
1868 er Pétur búinn að byggja þriðja
timburhúsið í svipuðum stíl og Riishúsið.
Þar var aðalverslunin eftir það, allt þar
til húsið brann árið 1941. Riishúsið
og verslunarhúsið sneru stöfnum í norður
og suður en pakkhúsið sneri aftur á móti
í austur og vestur og myndaðist á milli húsanna
ferhyrnt hlað eða húsagarður sem var lokað
að sunnanverðu með grindverki og var þá
komin ágæt aðstaða fyrir menn að taka
ofan af lestarhestum og einnig að búa upp á
lestirnar til langrar ferðar því margir viðskiptamenn
Borðeyrarverslunar í þann tíma komu um
langan veg í kaupstað. Sumir komu sjóveg, minnsta
kosti var það alsiða hér í firði
áður fyrr að fara á bát í
kaupstaðinn.
Skólamál
Sem áður sagði var Pétur Eggerts mjög
framfarasinnaður og átti fleiri hugðarefni en
verslunarmál. Frá því er greint í
sögu Torfa Bjarnasonar og Ólafsdalsskóla eftir
Játvarð Jökul Júlíusson að
haustið 1867 fór Torfi Bjarnason að Borðeyri
til Péturs Eggerts. Þeir voru gamlir sveitungar
vestan úr Saurbæ og áttu auk þess sameiginlegt
að hafa báðir sótt nám til Bretlandseyja.
Pétur í verslunarfræðum og Torfi í
búfræði. Á þessum haustdögum
tekst með þeim samstarf um að efna til samskota
vítt um land fyrir alþýðuskóla
á Borðeyri. Í ársbyrjun 1868 fer svo
Torfi suður á land til sjóróðra
og hefur í farangri sínum boðsbréf þeirra
félaganna. Pétur stýrði samskotum frá
Borðeyri og urðu þau allmikil um nærliggjandi
sýslur. 20. desember 1868 skrifar Pétur bréf
til Torfa. Þá hafði staðið skóli
yfir og kennari var Jónas Björnsson frá Þórormstungu,
maður prestlærður og seinna prestur á Ríp.
Pétur segir samskotin aukast, safnast hafi 800 ríkisdalir.
Verulegur hluti þeirra var úr Húnavatnssýslum,
en síðar ákváðu ráðamenn
þar að færa 600 ríkisdali af fénu
til Kvennaskólans á Ytri-Ey. En hugmyndir um skólahald
á Borðeyri komst aldrei vel til framkvæmda en
víst er að hún kom róti á hugi
manna og hvatti til dáða. Ef til vill er hún
hvati til þeirra skóla sem risu í nágrenninu
síðar meir. Það sem minnir í dag
á þessa alþýðuskólavakningu
með áþreifanlegum hætti er sparisjóðsbók
í Sparisjóði Hrútfirðinga sem skráð
er á Alþýðuskólasjóð
Borðeyrar. Þessi bók hefur fylgt Sparisjóðnum
alla tíð og er enn til. Einnig munu þeir félagarnir
Torfi og Pétur hafa stofnað til lestrarfélags
á Borðeyri um þetta leyti, af því
má ráða hve hugur þeirra hefur staðið
til að auka menntun fólks og almenna þekkingu.
Hafa þeir verið í því sem fleiru
langt á undan samtímanum.
En nú taka önnur stórvirki við. Talið
er að árið 1869 sé töluverð umræða
í gangi um stofnun verslunarfélags fyrir byggðalögin
við Húnaflóa.
Mér þykir trúlegt að þegar menn
á borð við þá Pétur Eggerts
og Torfa Bjarnason voru að velta fyrir sér framfaramálum
þá hafi borið á góma hvernig hægt
væri að koma á fót innlendri verslun.
Verslun sem stjórnað væri af landsmönnum
sjálfum, verslun sem leitaði eftir viðskiptum
við fólk, byði upp á vandaða vöru
á sanngjörnu verði og kæmi afurðum
landsmanna í sölu á hæsta mögulegu
verði hverju sinni.
Það var mágur Péturs Eggerts, Páll
J. Vídalín alþingismaður í Víðidalstungu
sem fyrstur bar fram tillögu um stofnun verslunarfélags
á fundi á Þingeyrum 8.október 1869.
Tillagan fékk góðar undirtektir og kosin var
framkvæmdanefnd til að undirbúa félagsstofnunina.
Í henni áttu sæti Páll J. Vídalín
Víðidalstungu, Pétur Eggerts Borðeyri og
Sveinn Skúlason Staðarbakka.
Félagsverslun stofnuð
Þann 15. mars 1870 var fundur haldinn á Gauksmýri
og Félagsverslunin við Húnaflóa formlega
stofnuð og lög yfir hana samþykkt. Þetta
var hlutafélag og hvert hlutabréf á 25 ríkisdali
og skyldu vera 800 talsins.
Páll J. Vídalín var kosinn forseti félagsins
en Pétur Eggerts ráðinn kaupstjóri.
Aðalstöð félagsins var á Borðeyri
í verslunarhúsum sem Pétur var nýbúinn
að reisa og var félagið oft kennt við staðinn
og kallað Borðeyrarfélagið.
Pétur seldi félaginu verslunarhúsin og mun
hafa lagt andvirðið fram sem hlutafé í
Félagsversluninni. Þetta hús sem við
köllum Riishús í dag varð íbúðarhús
verslunarstjórans hverju sinni.
Árið 1875 náði félagsverslunin yfir
sex sýslur. Frá Siglufirði suður til Borgarfjarðar.
Sama ár er félaginu skipt í tvennt um Gljúfurá
í Húnaþingi og vestanmenn héldu áfram
verslunni á Borðeyri með Pétur Eggerts
kaupstjóra en Skagfirðingar og Austur-Húnvetningar
sameinuðust um Grafarósfélagið sem kennt
er við Grafarós í Skagafirði og varð
Jón A. Blöndal fyrir því.
Þegar þetta gerðist voru kauptún eins
og Blönduós, Hvammstangi, Hólmavík
og Búðardalur hreinlega ekki til. Verslun á
þeim stöðum reis út frá Félagsversluninni
á Borðeyri. Þaðan kom reynslan og þekkingin
á hvernig bæri að haga viðskiptum.
Thomsen kaupmaður er fyrstur verslaði á Blönduósi
1875 kom þangað frá Borðeyri, hafði
starfað hjá Félagsversluninni. Riis kaupmaður
á Borðeyri byrjaði verslun á Hvammstanga
og Hólmavík um aldamótin síðustu.
Á þeim tíma beittu áhrifamenn í
héruðum sér fyrir því að fá
hafnir löggiltar svo siglingar gætu hafist til fleiri
staða og verslanir risið til hagsbóta fyrir almenning
með því að styttra varð í kaupstaðinn.
Hafa ber í huga hve samgöngur voru erfiðar, engir
vegir og ár óbrúaðar. Þá
voru einu verslanirnar við Húnaflóa á
Skagaströnd og í Kúvíkum í Reykjafirði.
Þessi tilraun varð þó skammlífari
en menn ætluðu í fyrstu og margt mun hafa stuðlað
að því. Talið er að rekstrarfjárskortur
og skuldir meiri en ungt fyrirtæki gat borið hafi vegið
þungt. Engin bankastarfsemi var þá til í
landinu. Kaupmenn brugðust hart við og bundust samtökum
gegn félagsstarfsseminni bæði innanlands og
utan. Það er ekkert nýtt að kaupmannastéttin
hafi horn í síðu félags eða samvinnuverslunar.
Þá var enginn reynsla í svona rekstri meðal
forráðamanna og því hafa eflaust átt
sér stað einhver mistök í stjórnun.
Lok Félagsverslunar
Eftir að Félagsverslunin við Húnaflóa
leið undir lok 1877 komust verslunarhúsin á
Borðeyri í eigu Zöllner ensks stórkaupmanns
og varð Pétur verslunarstjóri hjá honum
þar til hann flutti brott 1879. Sagt er að síðasta
veturinn á Borðeyri hafi Pétur smíðað
sexæring inn í pakkhúsi og siglt honum um
vorið er ísa leysti út á Bitrufjörð
að ósum Krossár. Þaðan hafi báturinn
verið dreginn á hestum yfir Krossárdal að
Gilsfirði síðan hefi Pétur undið upp
segl og siglt út í Akureyjar til föður
sins þar sem hann settist að.
Kristján Hall tengdasonur Péturs Eggerts varð
þá verslunarstjóri en hans naut ekki lengi
við. Hann lést af voðaskoti 1881.
Brydesverslun
Nú kemst Borðeyrarverslun í eigu Hans A.
Clausen sem víðar rak verslun á Íslandi
í þá tíð, verslunarstjóri
hans varð Heinrich Biering.. Um þetta leyti rís
upp önnur verslun á Borðeyri. Árið
1878 hóf Valdimar Bryde kaupmaður verslun á
Borðeyri, reisti fyrir hana hús, mikla myndarbyggingu
sem seinna varð aðsetur Sýslumanns Strandamanna
meðan hann bjó á Borðeyri, þá
kallað Sýslumannshús.
Riis-verslun
Nú voru komnar tvær kaupmannaverslanir á
staðinn. Sama ár réðist til Brydesverslunar
ungur danskur piltur sem lærlingur í verslunarfræðum.
Hann hét Thor Jensen, af honum er mikil saga sem ekki
verður sögð hér.
Árið 1890 kaupir Richard Peter Riis verslunina af
Hans A. Clausen. Riis var þá búinn að
vera í þjónustu Clausen um nokkurra ára
skeið, hafði meðal annars rekið lausakaupmennsku
í Skeljavík við Steingrímsfjörð
að sumrinu. Árið 1892 kaupir svo Riis einnig Brydesverslun
sem þá var að dragast saman og eftir það
varð um tíma aðeins um eina verslun að ræða.
En ekki var með öllu laust við samkeppni. Verslunarfélag
Dalamanna sem reis upp eftir að Félagsverslun leið
undir lok, var þá starfandi undir forustu Torfa
Bjarnasonar í Ólafsdal. Verslunarfélagið
starfaði sem deildarskipt pöntunarfélag og hafði
aðstöðu á Borðeyri í litlu geymsluhúsi
fremst á tanganum. Þar voru lagðar upp vörur
á vegum félagsins þar til Kaupfélag
Hrútfirðinga var stofnað árið 1899.
Lok Kaupmannaverslunar á Borðeyri
Kona Riis var dönsk og hét Claudine, bjuggu þau
hjón á Borðeyri til ársins 1896 þá
fluttu þau til Kaupmannahafnar. En Riis kom á hverju
vori og dvaldi á Borðeyri fram yfir haustkauptíð.
Af þessum nafntogaða kaupmanni dregur íbúðarhúsið
nafn sitt sem það heldur enn í dag, Riishús,
en þegar Riis kaupmaður flytur til Borðeyrar er
þetta hús búið að standa þar
í ein 28 ár. Ein mesta framkvæmd Riis var
vandað sláturhús er hann lét byggja
árið 1912. Þetta hús var eitt hið
besta og vandaðasta sláturhús á þeim
tíma og starfrækt til ársins 1968 og stendur
enn. Er nú notað sem fjárrétt fyrir
nýja sláturhúsið. Þegar Riis kaupmaður
lést árið 1920, mynduðu Thor Jensen, Ólafur
Benjamínsson stórkaupmaður í Reykjavík
og Hinrik Theódórs síðasti verslunarstjóri
hjá Riis kaupmanni, hlutafélag um verslun hans
undir sama firmanafni þ.e. Riisverslun. Var hún
rekin allt til ársins 1930 er hún var seld Kaupfélagi
Hrútfirðinga. Var þá lokið kaupmannaverslun
á Borðeyri. Síðan hefur Kaupfélagið
haft þar alla verslun til þessa.
Um Richard P. Riis
Í bók sinni, "Enginn ræður sínum
næturstað" segir höfundurinn Pétur
Sigfússon sem var kaupfélagsstjóri á
Borðeyri árin 1935-42 frá.
"Á þessum árum lifðu enn margar
sagnir um hinn stórbrotna danska kaupmann. Hinn aldni
ágætismaður Lýður Sæmundsson
kunni margt frá honum að segja. Hann hafði unnið
fyrir Riis og drukkið með Riis og þekkti gjörla
alla hans háttu í einkalífi og störfum.
Það sem einkenndi þennan mann voru vissir eiginleikar
sem á þeim dögum voru í háu gildi.
Loforð hans öll stóðu sem stafur á
bók og bókaði hann þó aldrei slík
loforð. Árvekni hans og hirðusemi var með
afbrigðum og það alveg eins þó sofnað
hefði á skrifstofugólfinu útúrfullur.
Og þar gekk Lýður oft frá honum um miðnæturskeið.
Fyrstur var hann á stjá hvern morgun þrátt
fyrir það og leit með eigin augum eftir hverju
starfi. Þetta sagði mér sómamaðurinn
Lýður, sem svo mjög kunni að mesta kosti
þessa mæta manns og átti sjálfur þessa
sömu eiginleika í ríkum mæli og mat
allan manndóm og trúmennsku fyrst allra kosta.
En það sem ég get hér um Riis er af því
tilefni að eitt sinn á Borðeyrarárum mínum
komu gestir til mín og höfðu gistingu í
húsi mínu. Við burtför að morgni kom
í ljós að einn af gestunum hafði séð
gamlan og feitan mann sofandi á stofugólfinu á
vissum tilteknum stað. Af kurteisi minntist hann ekki á
þetta um kvöldið, áleit þetta illa
staddan heimamann aðeins en þegar enginn annar af gestunum
hafði séð þetta kom það eðlilega
til umræðu. Lýsing þessa gests sem ekkert
gat þekkt til Riis kom mjög vel heim við lýsingu
af honum að sögn kunnugra, og á nákvæmlega
þessum stað sofnaði hann margsinnis eftir drykkju.
"Hann var of þungur fyrir mig" sagði Lýður,
"enda vildi hann helst liggja þarna. Þetta var
skrifstofa hans hér áður fyrr en aldrei hnaut
ég um hann þótt ég gengi þarna
út og inn á öllum tímum sólarhrings
í átta ár".
Þannig segir Pétur Sigfússon frá og
ekki er þetta eina dæmið um að menn hafi
séð í Riishúsi roskinn mann og virðulegan
sem ekki hefur reynst af þssum heimi þegar til átti
að taka. Víst er um að engan hefur sakað að
þekkja Riis á þennan yfirnáttúrulega
hátt og er það trú sumra að hann
sé þarna enn og fylgi þessu húsi eins
og góður vættur og gæti þess.
Eldsvoðar
Vonandi er það rétt því svo
merkilegt sem það er þá er þetta
eina húsð sem enn stendur frá fornum frægðartíma
staðarins. Öll hin verslunarhúsin utan pakkhúsið
frá 1860 urðu eldi að bráð. Nýleg
verslunarhús Kaupfélags Hrútfirðinga
brunnu til ösku árið 1931, þá flutti
kaupfélagið starfsemi sína í hin gömlu
verslunarhús Riisverslunar sem það hafði
keypt árið áður. Árið 1941 varð
annar stórbruni á Borðeyri, það þessu
sinni af völdum setuliðsins breska sem fór óvarlega
með eld og þá brann Riisverslunin, frystihúsið,
hluti sláturhússins og einnig svokallað sýslumannshús
til grunna og meginhluti staðarins var rjúkandi rúst.
Þessir miklu brunar urðu Borðeyri ægilegt
áfall, segja má að staðurinn hafi aldrei
náð sér að fullu síðan. Þessi
skaði er því á margan hátt óbætanlegur,
einnig glötuðust mest öll gögn um verslunina.
Aðeins það sem var varðveitt í Riishúsi
bjargaðist. En nú fékk Riishús nýtt
hlutverk, í það var verslunin flutt á
jarðhæðina en efri hæðin var íbúð
fyrir verslunarstarfsmenn. Kaupfélagsstjórinn flutti
í annað hús "Tómasarbæ"
sem kaupfélagið hafði þá nýkeypt.
Þarna var verslunin starfrækt þar til kaupfélagið
reisti ný hús undir starfsemi sína og flutti
þangað verslunina árið 1960 og þar
er hún nú.
Íbúar Riishúss
Margir eru þeir sem búið hafa í þessu
húsi um lengri eða skemmri tíma og væri
of langt upp að telja enda brestur mig kunnugleika til þess.
Ekki verður svo skilist við íbúa Riishúss
að ekki sé minnst á þær Höllu
og Rúnu sem um áraraðir bjuggu tvær saman
í litlu súðarherbergi í Riishúsi.
Halla Björnsdóttir var Árnesingur að uppruna
en fluttist ung norður í Hrútafjörð
í Bæ til Sigurðar Sverrissonar Sýslumanns,
giftist Kristjáni Gíslasyni sýsluskrifara,
fyrsta formanni Kaupfélags Hrútfirðinga og
bjuggu þau lengst af á Prestbakka, þar til
Kristján lést árið 1927.
Það orð fór af Höllu að hún
hefði verið óvenjuleg kona um margt, stórglæsileg,
tápmikil, hraust, gáfuð, orðdjörf
og hrókur alls fagnaðar ef svo má um konu segja.
Kristrún Jónsdóttir var ættuð
héðan úr Hrútafirði. Hún
réðst sem unglingur til Höllu og Kristjáns
á Prestbakka og skildu þær Halla og Rúna
aldrei eftir það meðan báðar lifðu.
"Tvær ríkja þær saman sem ein heild
í meðvitund samtíðarfólksins hér
um slóðir, og tvær saman munu þær
lifa lengi sem ein óaðskiljanleg heild í hugum
fjölmargra jafnvel þótt önnur eða
báðar hverfi af yfirborði jarðar, því
svo nátengd og samslungin eru þessi tvö nöfn:
Rúna og Halla eða Halla og Rúna um allan Hrútafjörð
og víðar".
Síðast íbúi Riishússins var einmitt
Kristrún ( Rúna ) Jónsdóttir, hún
bjó þar langa hríð eftir að Halla
lést, flutti úr húsinu árið 1965.
Eftir að fastri búsetu lauk má segja að
húsið hafi drabbast niður. Um nokkurra ára
skeið starfrækti Helgi Hannesson smiður trésmíðaverkstæði
í hluta hússins, annars staðar safnaðist
upp drasl og aðrir einskis nýtir hlutir.
Fyrir nokkrum árum fór af stað umræða
um að varðveita og endurbyggja þetta merkilega
hús. Til tals kom að flytja það á
Byggðasafnið að Reykjum, en frá því
var horfið og ákveðið að gera húsið
upp á sama stað. Um það verkefni hefur verið
stofnaður starfshópur eða byggingarnefnd sem í
eiga sæti fulltrúar frá Kaupfélagi
Hrútfirðinga, Bæjarhreppi, Verkalýðsfélagi
Hrútfirðinga, Sparisjóði Húnaþings
og Stranda, Kvenfélaginu Iðunni og áhugamannahópi
um endurbyggingu hússins. Formaður starfshópsins
er Sverrir Björnsson bóndi í Brautarholti
í Húnaþingi-Vestra.
Styrktaraðilar auk framangreindra sem starfshópinn
skipa hafa verið Húsfriðunarsjóður,
Byggðastofnun, Framleiðnisjóður Landbúnaðarins,
Þjóðhátíðarsjóður,
Landsbankinn, VÍS, Sjóvá-Almennar og fyrrum
Staðarhreppur. Húsið er endurbyggt fyrir styrktarfé
eingöngu og nemur það nú 10,5 millj. króna.
Þorgeir Jónsson arkitekt var fenginn til að
vinna teikningar og áætlun um endurbyggingu og hafa
yfirumsjón með framkvæmdum. Árið
1994 var hafist handa og suðurgaflinn endurnýjaður.
Við það var notaður rekaviður af Ströndum.
Aðalsmiður við bygginguna er Bragi Skúlason
frá Ljótunnarstöðum, nú búsettur
á Sauðárkróki en hann hefur mikla reynslu
af endurgerð gamalla húsa. Sumarið 1996 var haldið
áfram framkvæmdum og endurnýjun hússins
að utan var lokið haustið 1998.
Ánægjulegt er að sjá þetta gamla
minnismerki um verslunarsögu staðarins öðlast
að nýju reisn og þokka. Merki um hugsjónir
manna sem ruddu brautina fyrir því að landsmenn
tækju sjálfir verslunina í eigin hendur og
stunduðu vöruvöndun jafnt í aðkeyptum
nauðsynjum sem afurðum þeim er framleiddar voru
í landinu til sölu og útflutnings.
Hugmyndir um hvaða hlutverki þessu húsi verður
valið, þegar endurbyggingu lýkur eru ekki að
fullu mótaðar en rætt hefur verið um að
þar verði handverksstofa fyrir smáiðnað
og minjagripasölu. Auk þess að tengja húsið
ferðamálum og ferðaþjónustu sem upplýsingamiðstöð
fyrir þá sem inn í héraðið
koma og ætla að ferðast um Strandir og Vestfirði.
Einnig að reka þar að sumarlagi kaffistofu í
gömlum stíl og að sjálfsögðu
verður reynt að kynna söguna í myndum og
máli svo og með þeim munum sem til eru.
Georg Jón Jónsson
Greinin birtist í Strandapósti 1996
Auk viðbóta 1999.
|